Hollráð - 5 nýstárlegar aðferðir til að hengja upp verk

5 nýstárlegar aðferðir til að hengja upp verk

Auður veggur gleður ekki augað. Þess vegna leitum við í falleg listaverk til að fegra veggi heimilisins. Það getur þó stundum reynst erfitt að finna réttan stað fyrir verkin. Við höfum því tekið saman fimm nýstárlegar aðferðir til að "hengja upp" listaverk.

Hér fyrir neðan getur þú séð öðruvísi og nýstárlegar aðferðir til að skreyta heimilið með fallegum listaverkum.


Andstæður paraðar saman

Að para andstæður saman getur hljómað ógnvekjandi. Hins vegar kemur það oft mjög fallega út að skapa andstæður á milli listaverka og húsgagna, hvort sem það séu litaandstæður eða andstæður þegar kemur að stíl. Til að mynda getur litríkt abstrakt verk litið mjög vel út þegar því er parað við eldri húsgögn.

"Abstrakt III" eftir Hrafnhildi Gísladóttir.


Upp við vegg

Ef þú getur ekki ákveðið hvar þú átt að hengja verkið upp getur þú einfaldlega sleppt því. Að stilla verki upp við vegg getur komið jafnvel eða, í sumum tilfellum, betur út. Þá getur þú einnig fært verkið auðveldlega til og stillt því upp á hillu, kommóðu o.þ.h.

"Blátt teppi" eftir Hörð Filipsson.


Fylla vegginn

Að hengja upp verk sem fyllir út vegg getur skapað ákveðna nánd, eins og að skoða listaverk einn á safni. Verk af slíkri stærð munu skilja eftir sig varanleg hughrif á meðal gesta.

Án titils eftir Kristberg Ó. Pétursson.


Lítil mynd í stóru kartoni

Litlar myndir geta oft virkað "einmanna" á stórum vegg og liggur þá sú lausn beinast við að bæta við öðrum verkum. Hins vegar, ef þú ert með verk sem er unnið á t.d. pappír, er önnur lausn að setja verkið í stórt karton. Það um leið stækkar verkið til muna og gefur því skemmtilegan blæ.

"Fljúgandi eyja í grænum dal" eftir Nínu Ivanova.


Ramma inn húsgögn

Ef þú ert með mikið veggpláss í kringum húsgögnin þín getur komið vel út að setja mörg minni verk í kring til að skapa skemmtilegt mynstur. Þetta er hægt að gera við húsgögn sem liggja við veggi heimilins, svo sem skápa, sófa og kommóður.

Verk eftir Björk Tryggvadóttir.


You have successfully subscribed!
This email has been registered