Á bak við verkin - Þórunn Bára Björnsdóttir

Þórunn Bára Björnsdóttir hefur verið virk í íslenskri myndlist síðastliðinn áratug. Hún lauk listnámi við listaháskólann í Edinborg og Wesleyjan háskóla í Bandaríkjunum. Hún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og hefur haldið sýningar árlega, ýmist á Íslandi eða erlendis.

Þegar formlegu listnámi lauk lagði Þórunn frá sér það sem hún hafði lært og treysti þess í stað á eigið innsæi. Hún skapar einungis verk sem hugur hennar kallar eftir og sem henni líður vel með. Hún fæst aðallega við náttúruna og vitrænt og tilfinningalegt samband mannsins við hana í verkum sínum.

Segðu okkur aðeins frá þér og þínum fyrstu skrefum í myndlist.

Sterkustu bernskuminningarnar tengjast ilmi af nýjum litum, skráfi í auðum teikniblöðum og upplifun af rakri mold í skandinavískum skógum og vorgróðri í íslenskum móum. Þarna vaknaði áhuginn á listsköpun og náttúru og dvaldi sá áhugi með mér og beið síns tíma á meðan ég valdi langa, fjölbreytta og innihaldsríka leið að þeim stað sem ég er nú á.

Hvernig myndir þú skilgreina listina þína í eigin orðum?

Verkin eru yfirleitt náttúrutengd en nú er ég minna upptekin af því hvað ég mála en meira hvernig. Verkin eru yfirleitt blanda af hlutlægum og óhlutlægum litaformum eftir því hvaða hughrifum ég vil ná fram hjá áhorfandanum. Þannig tel ég að þekkt form séu til þess fallin að vekja vellíðan og öryggi en óhlutbundin form skerpi hugsun. Öll verk eru unnin í einlægni og tengjast lífsskoðun minni og hugarheimi. Ég mála fyrir mig en það gleður mig þegar aðrir njóta verkanna.

Surtsey - Evolution of life“ eftir Þórunni Báru. Verkið var hluti af útskriftarsýningu listaháskólans í Edinborg árið 2009.  

Surtsey - jörðin - fléttur
100x80 cm.

Akrýl á striga

Surtsey - blóðberg
70x70 cm.
Akrýl á striga

Surtsey - samhljómur náttúrunnar
60x50 cm.
Akrýl á striga

Surtsey - mosabeð
120x120 cm.

Akrýl á striga


Fyrir mér er lífið list. Þess vegna á ég erfitt með að aðskilja líf og list í minningunni. Ég hef á tilfinningunni að sköpunarferli byggi á því að ég innbyrði það í umhverfinu sem hrífur mig, sem svo birtist á einn eða annan hátt í verkunum.

Hvað veitir þér innblástur í listsköpun?

Drifkraftur listarinnar í mínu tilviki er tilhlökkun að búa til eitthvað úr engu og að hafa allt um það að segja. Ég stíg inn í helgidóm listflæðis og fegurðar og skil hversdagsleikann eftir utan vinnustofunnar. Sköpuninni fylgir ákveðin spenna og áræðni og heimild til að mistakast. En upp úr mistökunum spretta nýjungar. Síðastliðin 15 ár hefur náttúruskynjun og þróun lífs í Surtsey veitt mér mikinn innblástur í listsköpun. Ég hef alltaf haft sterka tengingu við náttúruna og er náttúruvernd veigamikill þáttur í mínu lífi.

Getur þú leitt okkur í gegnum ferlið að skapa verk?

Ég vinn aðallega í akrýl eða olíu á léreft en einnig með vatnsliti, kol og þurrpastel. Með þrotlausri þjálfun hefur sjálfstraust mitt í málverkinu aukist. Innsæi ræður för að mestu en gagnrýnin hugsun þegar ég skynja að verkið er ekki að ganga upp. Þegar tilfinning segir mér að verki sé lokið tengi ég það saman á meðvitaðan hátt, ýmist með teikningu, litaflötum eða með því að mála yfir ákveðna hluta þannig að heildin gangi upp. Ég reyni að lyfta upp því smáa í lífinu sem oft yfirsést en eru þó mikilvægir hlekkir í vistkeðjunni. Ég geri ekki kröfur um það hvernig upplifa eigi verkið. En í hjarta mínu vona ég að áhorfandinn styrki tengslin við náttúruna, njóti hennar og virði.

Vinnustofa Þórunnar í Vesturbænum.

You have successfully subscribed!
This email has been registered