Á bak við verkin - Marnhild Hilma Kambsenni

Marnhild Hilma er fædd og uppalin í Fuglafirði í Færeyjum. Fuglafjörður er staðsettur við sjóinn og fannst Marnhild yndislegt að alast upp í umhverfi við sjóinn og fjöll. Árið 1977 heimsótti Marnhild Ísland, en sú heimsókn ílengdist og býr hún núna í Hafnarfirðinum.

Marnhild byrjaði að mála árið 2010 og var hún lengi á námskeiðum hjá Guðfinnu Hjálmarsdóttir, eiganda Litur og Föndur. Árið 2014 lenti Marnhild í veikindum sem urðu til þess að hún þurfti að hætta að vinna. Þetta hafði mikil áhrif á hana andlega. Eiginmaður Marnhild hvatti hana til að byrja að mála heima. Það hjálpaði andlegu hliðinni mikið og gat Marnhild gleymt sér klukkustundum saman.

Í dag er Marnhild mjög athafnasöm í myndlistinni og hefur hún haldið þrjár einkasýningar, ásamt því að taka þátt í nokkrum samsýningum bæði hér á landi og í Færeyjum.

Hvað veitir þér innblástur í listsköpun?

Það sem veitir mér innblástur í listsköpun er umhverfi mitt í Fuglafirði. Færeyingar eru mjög litaglaðir og það er ég líka þegar ég mála. Fjöll, sjór og hús eru oftast viðfangsefni minna mynda.

Getur þú leitt okkur í gegnum ferlið að skapa verk?

Ég ákveð sjaldnast fyrirfram hvað ég ætla að mála. Ég hef kannski eitthvað í huga og byrja út frá því. Þegar ég er svo byrjuð gleymi ég mér og þegar uppi er staðið er þetta allt annað en ég hafði hugsað mér í byrjun. Það er þetta sem er svo skemmtilegt við listina.

Árið 2018 hélt Marnhild sýningu á heimili sínu. Sýningin bar nafnið „Heima hjá Hilmu“.
„Mig langaði til að gera eitthvað öðruvísi. Ég mæli eindregið með þessu, gestunum fannst þetta svo skemmtilegt og persónulegt. Boðið var upp á kaffi og heimabakað.


Að mála gaf mér mikið og gat ég gleymt mér klukkustundum saman við að blanda liti og mála glaðlegar myndir af húsum og fjöllum.

Að Keilisbaki
50x70 cm
Olía á striga

Fjölskyldubönd
30x40 cm
Olía á striga

Úti í bakka, Siglufirði
40x40 cm
Olía á striga

Gásadalur
76x38 cm
Olía á striga


Finnst þér mikilvægt að breyta reglulega um stíl eða ertu alltaf í sama flæði?

Ég hef alltaf haft gaman að því að prófa nýja hluti og stundum fylgi ég straumnum. Ég hef hins vegar komist að því að það er ekki það sem fólk vill frá mér. Ég hef minn stíl en auðvitað kynni ég mér nýja tækni og færi það yfir á myndirnar mínar.

Hvernig ertu vanalega stemmd þegar þú skapar þína list og er einhver sérstakur tími eða rútína sem þú vinnur eftir?

Vinnustofan mín eru glersvalirnar heima hjá mér og því er mjög auðvelt fyrir mig að mála þegar hugurinn er til staðar. Ég fæ mjög oft hugmyndir seint á kvöldin, þegar ró er komin yfir húsið og þá verð ég bara að fara út og mála.

Af hverju valdirðu listsköpun?

Ég hef alltaf haft þörf fyrir því að skapa eitthvað. Ég var lengi að prjóna en nú þegar ég á ekki jafn auðvelt með það finnst mér æðislegt að skapa áfram með litagleði.

„Har sum hjartað slær (Þar sem hjartað slær)“. Verkið var sýnt á fyrstu sýningu Marnhild í Fuglafirði. Verkið er af götunni þar sem hún ólst upp og er henni mjög kært.

You have successfully subscribed!
This email has been registered