Á bak við verkin - Jóhannes K. Kristjánsson
Jóhannes Kristjánsson er ættaður úr Aðaldal, Þingeyjarsveit. Þegar hann var 10 ára byrjaði hann að dunda sér við það að teikna andlitsmyndir eftir myndum úr dagblöðum. Smám saman urðu skissurnar nákvæmari og betri.
Jóhannes hefur stundað myndlist síðastliðin 20 ár. Samhliða því að læra rafeindavirkjun sótti hann námskeið hjá Myndlistaskólanum á Akureyri. Þar lærði hann módelteikningu, hlutateikningu, málun og litablöndun. Þrátt fyrir að hafa ekki myndlistina að aðalstarfi hefur hún ávallt loðið við Jóhannes í gegnum tíðina.
Í dag málar Jóhannes nær eingöngu með olíumálningu eftir tilraunarstarfsemi með öðrum efnum og finnst honum olían henta best fyrir sinn stíl.
Við spurðum Jóhannes nokkra spurninga og fengum að vita hver er á bak við verkin.
Afhverju valdir þú listsköpun?
Ég hef alltaf haft gaman að því að skapa eitthvað, búa eitthvað til. Það að mála er bara einn anginn af því. Dagsdaglega er ég að vinna að annars konar sköpun, þ.e. að búa til útvarpsauglýsingar og ýmis konar myndbönd. Þetta er allt hluti af þörfinni til að skapa.
Getur þú leitt okkur í gegnum ferlið þegar þú málar verk?
Það sem ég geri þegar ég byrja á verki er að velja einhverja góða fyrirmynd. Ég vil vera alveg orginal og tek því mínar ljósmyndir (fyrirmyndir) sjálfur. Þegar myndin er svo valin klippi ég hana til þannig að hún sé í réttum hlutföllum miðað við strigann. Ég hef svo fyrirmyndina til hliðar á tölvuskjá á meðan ég mála. Ef myndin inniheldur mörg smáatriði strika ég gjarnan viðmiðunarlínur og skipti fletinum í litla ferninga og strika svo jafn marga ferninga á strigann. Þannig næ ég að skissa upp nákvæmari mynd á strigann. Því næst byrja ég að mála með og loka striganum alveg með nokkurn veginn réttum litatón. Oft mála ég í mörgum lögum, bæti smám saman við smáatriðum. Stundum þarf ég að bíða þar til flöturinn er orðinn þurr áður en byrjað er á næsta lagi. Þetta getur tekið nokkra daga þar sem olían er ansi lengi að þorna. Því eru sum verk mín lengi í vinnslu, allt að einn til tvo mánuði.
Jóhannes á vinnustofu sinni.
Það sem ég leitast eftir í mínum myndum er ákveðin ró og friður og þessi tilfinning að þarna sé gott að vera.
Málar þú alltaf í sama stíl?
Mér finnst raunsæislist henta mér ágætlega þar sem ég er mikið fyrir smáatriðin. Ég er ekki viss um að ég hafi hreinlega gert almennilega abstraktmynd. Ég prófaði reyndar einu sinni að gera mynd í þá átt. Hún er meira að segja eftir fyrirmynd. Þannig var að ég var að vinna við gervihnattarmóttöku þegar einn morguninn tók ég eftir því að NBA TV rásin var í einhverju rugli. Það var bara frosin mynd og allt í pixlum. Mér þótti þetta svo flott að ég tók skjáskot af þessu og svo málaði ég þetta eins nákvæmlega og ég gat.
„NBA TV” eftir Jóhannes.
Eru einhver ákveðin áhöld sem þú velur fram yfir önnur?
Ég nota pensilinn langmest, einstaka sinnum gríp ég í pallettuhníf, þá aðallega til að blanda litum saman á litapallettunni. Svo þegar ég held að allt sé komið og verkið klárt þá finnst mér ágætt að nota spegil. Það að nota spegil er eins og að koma að verkinu í fyrsta skipti. Þá sé ég oft ákveðin atriði í verkinu sem mér yfirsást áður því ég er kannski niðursokkinn í annað.