Á bak við verkin - Kristbergur Ó. Pétursson
Kristbergur Óðinn Pétursson er fæddur 1962, býr í Hafnarfirði og er með vinnustofu í Garðabæ. Hann hafði áhuga á listum, teikningu og málun frá því hann man eftir sér en það var svo móðir hans sem gaf honum sitt fyrsta olíusett um 11 ára aldur og ýtti það enn meira undir áhugann á málun.
Kristbergur tilheyrir þeim hópi íslenskra myndlistarmanna sem kvaddi sér hljóðs upp úr 1980 í listhreyfingu sem kölluð er „Nýja málverkið“. Hann hefur verið sérlega virkur á myndlistarsviðinu og afkastamikill í sýningahaldi undanfarin ár og nýtur viðurkenningar kollega sinna og listunnenda fyrir framlag sitt. Hann hefur á undanförnum áratugum þróað stílbrigði og myndmál í samræmi við viðfangsefnin hverju sinni. Hann er jafnframt leitandi og fundvís á nýja fleti á útfærslu og innihaldi.
Hvað hefur þú starfað við myndlist lengi?
Á námsárum mínum í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1979-85 tók ég þátt í nokkrum samsýningum og hélt nokkrar einkasýningar. Ég lauk námi frá Ríkisakademíunni í Amsterdam árið 1988 og hef síðan verið virkur á myndlistarsenunni.
Hvernig hefur þú sem listamaður þróast með tímanum?
Ég hef gegnum tíðina valið mér að vinna í nokkrum tilteknum miðlum: Olíumálun, vatnslitum, grafík og teikningu. Það eru viss stef sem eru miðlæg í höfundarverki mínu. Sum eru óhlutbundin og önnur á mörkunum að vera fígúratíf. Ég hef einnig skrifað ljóð og þau hafa haft sín áhrif á myndmálið.
Hér sést Kristbergur í sköpunarferli sínu á vinnustofunni sinni í Garðabæ.
Ég veit aldrei fyrirfram hvaða tilfinningu verkið mun miðla. Það gerist í vinnuferlinu að maður nær sambandi við það sem er að mótast á myndfletinum.
Getur þú leitt okkur í gegnum ferlið að skapa verk, frá byrjun til enda?
Þegar ég mála olíumálverk byrja ég án mikils verklegs undirbúnings. Verkið á sér hinsvegar sinn aðdraganda innra með mér. Málverkið er unnið í nokkrum litalögum og gengur í gegnum ýmsar breytingar í ferlinu.
Finnst þér mikilvægt að breyta reglulega um stíl eða ertu alltaf í sama flæði?
Maður er í flæði með ákveðna hugmynd eða stef í aðeins ákveðinn tíma. Útkoman getur verið myndasería. Þegar flæðinu lýkur er tímabært að hvíla þá hugmynd og snúa sér að öðru.
Við erum spennt að sjá hvað kemur frá þér næst. Hverju ertu að vinna að núna?
Það eru verkin fyrir sýningu mína í Amsterdam. Olíumálverk, vatnslitaverk og gouachemálverk. Sýningin verður haldin í listasalnum WG kunst, Amsterdam. Alls verða níu olíumálverk á sýningunni og u.þ.b. 20 gouachemyndir. Allt eru það ný verk unnin sérstaklega fyrir þetta tilefni. Stór hluti sýningarinnar er unninn út frá ljóðum mínum og verður gefin út ljóðabók af þessu tilefni.