Á bak við verkin - Kaja Þrastardóttir

Kaja Þrastardóttir er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún byrjaði að fikta við myndlist á unglingsárunum en það var ekki fyrr en árið 2005 sem hún byrjaði að mála af alvöru. Kaja hefur stundað myndlist með vinnu í 16 ár en undanfarin ár hefur hún einungis verið að mála.

Kaja segist hafa valið listsköpun af nauðsyn, hún þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, hvort sem að það sé lestur, hreyfing, vinna eða málun.

Segðu okkur aðeins frá þér og þínum fyrstu skrefum í myndlist

Áhugi minn kviknaði í æsku þegar ég horfði á pabba mála. Hann var mikill listamaður og lék allt í höndum hans. Ég byrjaði ekki fyrr en á unglingsaldri sjálf að teikna og skapa og byrjaði svo að mála fyrir alvöru 2005. Löngunin kemur í skorpum. Ef ég hef mikinn tíma þá mála ég eins og vindurinn en mun minna ef ég er í mikilli vinnu. Ég þarf alltaf að eiga striga og málningu til öryggis, alveg eins og ég verð að eiga eina bók við hendina sem er ólesin.

Hvernig hefur þú sem listamaður þróast með tímanum?

Þróunin á sér stað með því að prófa nýja stíla og tækni. Fyrst notaði ég eingöngu palettuhnífa og pensla og málaði bæði náttúrumyndir og abstrakt, aðallega abstrakt húsamyndir. Síðan prófaði ég fígúratíf málverk með dularfullu ívafi. Síðan kom skeið þar sem ég vildi prófa „fluid painting“ og gerði það í nokkurn tíma. Það var afskaplega skemmtilegt tímabil en mjög dýrt og subbulegt. Það þarf mikla málningu í þessa tegund verka, dýr efni sem þarf að blanda við málninguna og er ótrúlega „messy“. Ég var búin að sletta málningu upp um alla veggi og gólf við gerð þessara mynda. Núorðið mála ég næstum eingöngu abstrakt og svo blómamyndir.

Fyrir ofan má sjá eitt af eldri verkum Kaju sem hún heldur í uppáhaldi. Myndin er í eigu dóttur hennar og var máluð í kringum 2008. Ég kalla myndina Armageddon. Það er svolítill heimsendarbragur á þessari mynd og það gæti endurspeglað hugarástand mitt á þeim tíma. 

Án titils
150x200 cm.
Akrýl og kol á striga

Vættir
120x180 cm.
Akrýl og kol á striga

Aska
80x100 cm.
Akrýl á striga

Án titils
100x100 cm.
Akrýl á striga


Fólk hefur kannski tekið eftir að því myndirnar mínar eru mjög litsterkar. Ég hef reynt að dempa mig niður í litavali en útkoman verður aldrei þannig. Það sem veitir mér innblástur í myndir eru litir. Litir sem ég sé í umhverfinu, náttúrunni, heima hjá fólki, fatnaði, í raun bara hvar sem er. Það eru litir út um allt og úr nógu að velja.

Getur þú leitt okkur í gegnum ferlið að skapa verk, frá byrjun til enda?

Hugmyndin byrjar sem áður segir með einhverjum litum sem ég hef séð og er ég með óljósa hugmynd í kollinum um hvað ég vil gera. Stundum verður úr verk með þeim litum sem ég hafði hugsað mér en oft birtist eitthvað allt annað á striganum og allt aðrir litir. Stundum er eins og undirmeðvitundin taki yfirhöndina og máli það sem hún vill kalla fram. Ég veit yfirleitt alltaf hvenær myndin er búin. Ég hef verið spurð að því hvernig ég viti hvenær hún er búin að það er bara einhver tilfinning sem segir mér hvenær þetta er komið. Við tekur svo þornunarferli sem er sem betur fer ekki mjög langt þar sem ég mála með akrýl og þegar myndin er orðið nægilega þurr, þá lakka ég hana til að verja málninguna.

Eru einhver ákveðin áhöld sem þú velur fram yfir önnur?

Ég nota mikið palettuhnífa í öllum stærðum og gerðum. Svo eru það penslar og svampar, bönd og oft það sem er hendi næst. Ég á það til að finna einhver „absurd“ tól út á götu eða í náttúrunni sem ég tel mig geta notað við vinnuna og á fullt box af allskonar dóti sem ég hef notað við gerð mynda og á eftir að nota.

Við notum vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun þína á síðunni. Með því að halda áfram að vafra um síðuna samþykkir þú skilmála okkar um notkun á vefkökum
You have successfully subscribed!
This email has been registered