Kristbergur Ó. Pétursson tilheyrir þeim hópi íslenskra myndlistarmanna sem kvaddi sér hljóðs uppúr 1980 í listhreyfingu sem kölluð er "Nýja málverkið". Hann hefur verið sérlega virkur á myndlistarsviðinu og afkastamikill í sýningahaldi undanfarin ár og nýtur viðurkenningar kollega sinna og listunnenda fyrir framlag sitt. Hann hefur á undanförnum áratugum þróað stílbrigði og myndmál í samræmi við viðfangsefnin hverju sinni. Hann er jafnframt leitandi og fundvís á nýja fleti á útfærslu og innihaldi.
Kristbergur fæddist í Hafnarfirði árið 1962. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, 1979-85 og við De Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam 1985-88.
Á námsárunum helgaði hann sig grafíkverkum og teikningum. Að námi loknu vann hann mest að olíumálverkum og teikningum en undanfarin ár hefur hann að auki unnið með vatnsliti, grafík, ljóðagerð, ljósmyndun og þrívíð verk. Hann býr í Hafnarfirði og er með vinnustofu í Garðabæ.
Kristbergur hefur haldið nær fimmtíu einkasýningar á ferlinum og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum heima og erlendis. Hann hefur fimm sinnum hlotið listamannalaun og að auki ýmsa styrki og viðurkenningar. Verk eftir hann eru í eigu nokkurra helstu listasafna landsins og í Kustforeningen í Þrándheimi, Noregi.
Kristbergur er meðlimur í Sambandi Íslenskra Myndlistarmanna og í Nýlistasafninu. Hann var kennari við MHÍ á árunum 1989 til 2000 og hefur síðan haldið fjölmörg myndlistarnámskeið fyrir ýmsa hópa. Undanfarin ár hefur hann verið með kúrsa í vatnslitamálun fyrir nemendur í málaradeild Myndlistarskólans í Reykjavík.
Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur fylgst með ferli Kristbergs allt frá árinu 1985 að minnsta kosti. Hann skrifaði eftirfarandi texta sem birtist í sýningarskrá sýningarinnar Hraun og mynd í Hafnarborg 2016. Þessi texti Aðalsteins gefur góða hugmynd um viðfangsefni og vinnubrögð Kristbergs:
,,Hraunlandslag er að sönnu höfuðviðfangsefni Kristbergs, hins vegar hefur hann takmarkaðan áhuga á staðfræði þess, táknrænu gildi eða bókstaflegri merkingu fyrir okkur sem erum þess aðnjótandi, heldur kappkostar hann að nálgast það á forsendum þess sjálfs. Um leið eru málverk hans og vatnslitamyndir ekki einskærar frásagnir af fyrirbærinu „hraun“, heldur frjálsleg tilbrigði „um“ það, með nauðsynlegum tilhliðrunum, einföldunum og ýkjum. Markmiðið er að gera það lifandi og virkt fyrir okkur áhorfendum sem hvorttveggja í senn, hraun og myndverk.
Fyrir Kristbergi eru lífsorka og áhrifamáttur hraunsins fólgin í því hvernig það bregst við birtunni, svolgrar hana í sig þar sem gjótur eru dýpstar, temprar hana og deyfir þar sem hún leikur á yfirborði þess, brýtur hana upp þar sem það er harðhjóskulegast. Sannfæring hans er sú að það sé ekki fyrir litrófið, heldur víxlverkan skugga og birtu sem við skynjum hið „sanna andlit“ hraunsins. Í strangasta skilningi eru myndir hans því ekki málaðar út frá grunneiningum krómatísks litaskala, heldur mótaðar með málningu, smám saman, í samræmi við ljós-og-skuggamálverk (chiaroscuro) og aðferðafræði sígildra málara á borð við Leonardo, Vélazquez og Rembrandt. Hér á landi er það helst Georg Guðni sem beitir viðlíka tækni í landslagsstemmum sínum.
Sérhver þessara mynda er þolinmæðisverk, þar sem málarinn leggur hvert gagnsætt eða hálfgagnsætt olíulagið ofan á annað, misjafnlega þunn í samræmi við þá birtu og áferð sem hann vill hafa til staðar á fletinum. Þessi lög geta numið mörgum tugum. Áferð er sömuleiðis hægt að stjórna með því að ýfa eða skrapa málaðan flötinn með ýmsum hætti, endurmála síðan eftir hentugleikum. Í höndum Kristbergs verður dimmleitur og áferðarríkur flöturinn eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði sem eiga sér enga hliðstæðu í anatómíu mannsins, öfugt við það sem gerist í áðurnefndum málverkum Kjarvals. Þessir innviðir stjórnast af eigin lögmálum, eru síkvikir og taka sífelldum breytingum, tvístrast, rekast á og leysast upp. Líta má á smáheim þessara verka sem eins konar endurspeglun alheims, makrókosmos, með óravíddum og ógnaröflum sínum."
Valdar einkasýningar
2020: "Að fenginni reynslu", SÍM-salurinn, Aðalstræti 16 Reykjavík.
2020: Málverkasýning í Gallerí Göngum, Háteigskirkju Reykjavík.
2019: Málverkasýning í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði.
2019: Málverkasýning í Lyngási 7, Garðabæ.
2018: "Við í Edinborgarhúsinu", Edinborg Menningarmiðstöð, Ísafirði.
2017-2018: "Utan þjónustusvæðis", Gerðuberg menningarhús.
2017: SÍM-salurinn, Samband íslenskra myndlistarmanna Aðalstræti 16 Reykjavík.
2017: Anarkía listasalur, Hamraborg 1 Kópavogi.
2016: "Hraun og mynd", Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
2015: Gallerý Fjörður, Verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði.
2014: Kaffi Mokka, Reykjavík.
2014: Gallerý Fjörður, Verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði.
2014: Anarkía listasalur, Hamraborg 1 Kópavogi.
2012: Gallerí Bar 46, Hverfisgötu 46 Reykjavík.
2009: Kaffi Mokka, Reykjavík.
2008: SÍM-salurinn, Aðalstræti 16 Reykjavík.
2005: Málverkasýning í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði.
2003: Hafnarborg, menningar-og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
2001: Safnahúsið, Borgarnesi.
2001: Listasumar á Akureyri, málverkasýning í Ketilhúsinu.
1997: Kunstlerhaus Cuxhaven, Þýskalandi.
1996: Sólon Íslandus, Bankastræti.
1994: Slunkaríki, Ísafirði.
1993: Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
1990: Gallerí einn einn, Skólavörðustíg í Reykjavík.
1987: Nýlistasafnið við Vatnsstíg, Reykjavík.
1987: Grafiek expo zaal, Rijksakademie í Amsterdam.
1987: Galerie Scholte í Rijksakademie í Amsterdam.
1984: Hafnarborg, menningar-og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
1983: Bókasafnið á Ísafirði.
Valdar samsýningar
2019: "Ljósabasar", fjáröflunarsýning fyrir Nýlistasafnið.
2019: Listamessa á Korpúlfsstöðum.
2018: Listamessa á Korpúlfsstöðum.
2018: Hafnarborg 35/30, afmælissýning. Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
2016: "List á lausu", Anarkía listasalur.
2015: "Nýmálað" á Kjarvalsstöðum.
2013: "Endurfundir" í Listasafni Reykjanesbæjar.
2013: "Flæði", Salon-sýning af safneigninni Kjarvalsstöðum.
2009: "Litir ættbogans", Menntasetrið við Lækinn, Hafnarfirði.
2008: Afmælissýning Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.
2008: "Hafnfirskir myndlistarmenn", Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
2006: "Hin blíðu hraun", Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
2004: Íslenskir og þýskir myndlistarmenn í Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
2000: "Guangzhou International Art Fair", Guangzhou, Kína.
2000: "4th Shanghai International Art Fair", Shanghai, Kína.
1999: "Samstaða – 61 listmálari", Listaskálinn í Hveragerði.
1998: "Líkt og vængjablak", náttúrulistaþing á Þingeyrum, Austur-Húnavatnssýslu.
1995: "Samtímis", fimm grafíklistamenn í Norræna Húsinu.
1995: Afmælissýning Nýlistasafnsins.
1994: Íslensk Grafík í Menningarmiðstöð Austur-Beijing, Kína.
1991: Listahátíð í Hafnarfirði.
1989: "Á tólfæringi", Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
1989: "Vijf ijslandse Kunstenaars", Pulitzer Art Gallery, Amsterdam.
1987: "Myndlistarmenn framtíðarinnar", Kjarvalsstöðum.
1985: "Ung Nordisk Kulturfestival", Stokkhólmi Svíþjóð.
1984: "Utgard", samsýning norræna myndlistarnema í Þrándheimi, Noregi.
1983: "Ný grafík" á Kjarvalsstöðum.
1983: "Gullströndin andar", JL húsið við Hringbraut.
Listamannalaun
1989: Fjórir mánuðir.
1994: Sex mánuðir.
1999: Sex mánuðir.
2014: Sex mánuðir.
2020: Einn mánuður.
Útgáfur
Grágrýti- Basalt, Kristbergur Ó. Pétursson, 2007. ISBN 978-9979-70-250-4.
Málverk 2008-2011, Kristbergur Ó. Pétursson, 2011. ISBN 978-9979-72-023-2.
Efnistök, Kristbergur Ó. Pétursson 2019. ISBN 978-9935-24-320-1.
Sýna minna