Altari og minjar
Stærð: 50x60 cm.
Tækni: Olía á striga.
"Það er áhugavert að horfa til kynslóðanna og reyna að átta sig á hver munurinn er á þeim. Í samræðum við foreldra mína og fólk af þeirra kynslóð kemur svo margt í ljós sem var öðruvísi, kringumstæður og hugarfar. Á sama tíma og líf þeirra virðist hafa verið harðara var það jafnframt einfaldara. Ekki eins mikið áreiti og hraði. Meira strit og líkamlegt starf. Er það meira eða minna frelsi?
Í heimspekinni eru menn gjarnir á að segja að manneskjan hafi alltaf verið eins, og meina þá e.t.v. að hugsun hennar og byggingarlag séu enn þau sömu. En þegar kringumstæðurnar breytast, þessar kringumstæður sem að manneskjan lifir í og mótar hver og hvað hún er, er manneskjan þá enn eins? Er í alvöru hægt að kalla nútíma tölvu-og snjallvæddan, fjórhjóladrifinn, kappklæddan, pakksaddan og umkringdan af alls konar vörum, tilboðum og dóti, er hægt að kalla hann "eins" og þann Íslending sem sagði að uppgötvun 20. aldarinnar væru gúmmístígvélin?
Altari og minjar fjallar um kynslóðamun, kringumstæður sem voru og gerðu kynslóðina á undan að því sem þau urðu. Ég vildi að þetta málverk væri eins og dyr inn í eitthvað sem er alltaf flókið, í opna spurningu um kringumstæður áa okkar og mér finnst að megi ekki gleymast að við þekkjum ekki til hlítar. Það er nefnilega auðvelt að dæma, en erfitt að meta. Því matið kallar á að maður nálgist þeirra forsendur, kringumstæðurnar, menninguna, hugarfarið o.s.frv. Hver var sjónarhóll þeirra?
Myndin sjálf er einföld. En dyr eru það oftast nær. (Það eru ekki allir sem vita hvað túbusjónvarp var. Eða að ofan á þeim voru mjög oft geymdar ljósmyndir af fjölskyldumeðlimum, jafnvel svarthvítum öfum og ömmum, ungum eða uppstilltum við ærið tilefni. Þau fengu að vera með, báru frosin vitni um nútímavæðinguna, öld ljósvakans. Og túban fékk vitaskuld öndvegi í húsum, var umfangsmikill og oft veglegur gripur (var stofustáss)."
Upplag
Lesa meira.
14 daga skilaréttur
Lesa meira.
Kaupferli og afhending
Lesa meira.
Heimsent eða sótt
Lesa meira.

Birgir Rafn Friðriksson
Birgir Rafn Friðriksson - B R F, fæddur í júlí 1973, er uppalinn Eyfirðingur, nánar tiltekið á Akureyri. Myndlistarmenntun hóf hann formlega úti í Suður Frakklandi 1995, þar sem hann segist hafa fengið ”bakteríuna”. Hann snéri því fljótt aftur heim til Akureyrar þar sem hann sótti mörg kvöldnámskeið Myndlistarskólans á Akureyri. Birgir Rafn skráði sig svo í dagnám við skólann og útskrifaðist frá málunardeildinni árið 2001 eftir fjögurra ára nám. Á meðan náminu stóð vann hann m.a. fyrir sér sem myndskreytir á auglýsingastofu og kenndi á myndlistanámskeiðum. Árið 1999 hlaut hann styrk til hálfs. . . Lesa meira