
Sigríður Vigfúsdóttir (SiVi)
Sigríður er fædd á Raufarhöfn 1946, en frá sex ára aldri hefur hún búið og starfað í Reykjavík. Hún fékk ung mikinn áhuga á myndlist og sótti námskeið í fjóra vetur í módelteikningu og teikningu hjá Ragnari Kjartanssyni. Þá sótti hún námskeið í einn vetur í vatslitamálun hjá Hafsteini Austmann, einn vetur í módelteikningu í Handiða- og myndlistaskólanum hjá Hring Jóhannssyni og í einn vetur í Myndlistaskóla Reykjavíkur í vatnslitamálun hjá Gunnlaugi S. Gíslasyni og módelteikningu.
Eftir Sigríði liggur fjöldinn allur af málverkum, vatnslitamyndum og teikningum, enda spannar myndlist hennar yfir langt tímabil þar sem hún sýnir ýmis stílbrigði myndlistarinnar. Þó að landslagið sé Sigríði hugleikið fer hún víða í leit að myndefni. Í abstrakt myndum raðar hún oft saman formum og litum af nákvæmni, enda lætur henni betur að vinna af vandvirkni en hvatvísi.
Sigríður hefur haldið fimm einkasýningar og auk þess tekið þátt í mörgum samsýningum.