
Guðrún Hreinsdóttir
Guðrún Hreinsdóttir er fædd og uppalin í Garðabæ. Bjó og starfaði yfir áratug í Noregi sem læknir en er nú aftur búsett í sínum heimabæ.
Náttúran er alltaf hið hvetjandi afl í listsköpun Guðrúnar og segir hún að íslensk náttúra er endalaus innblástur í sköpunarþörfina og vatnslitunin eins konar íhugun og endurnæring. Vatnslitirnir hafa sinn eigin karakter og spila sitt eigið hlutverk í listsköpuninni. Vatnslitirnir eru fallegir, einfaldir og krefjandi allt í senn og tónarnir eru mildir og gefa myndunum ákveðna ró og fegurð og því mjög notalegir ekki síst til að prýða heimili og vistarverur.
Guðrún Hreinsdóttir hefur sótt fjölmörg námskeið í teikningu, vatnslitamálun og olíumálun og leirlist í Myndlistarskóla Kópavogs og Myndlistarskólanum í Reykjavík. Einnig hefur hún sótt námskeið hjá íslenskum og erlendum vatnslitamálurum bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis og haldið samsýningar með Þóru Einarsdóttur og Björk Tryggvadóttur bæði hér á landi og í Finnlandi. Hún hefur einnig verið virkur þátttakandi í Grósku félagi myndlistarmanna í Garðabæ, í Vatnslitafélagi Íslands og í Nordisk akvarell selskap og sýnt á vegum allra þessara félaga bæði hér heima og á erlendri grund.
Helstu sýningar:
2011: Being a GP in the Nordic Countries, Tromsö
2015: Sýning EWC, fulltrúi NAS á Íslandi
2016: Vinabæjarmít Norrænafélagsins, Jakobstad í Finnlandi
2017: „Connections“ alþjóðleg vatnslitasýning í Norræna húsinu í Reykjavík ásamt 72 málurum Norræna vatnslitafélagsins og Royal Watercolor society of Wales.
2018: Listasalur Mosfellsbæjar, einkasýning
2018: Gallerí Fold, Leiðangur, Samsýning Grósku
2019: Gallerí Göng í Háteigskirkju
2019: Haustsýning Grósku
2019-2020: Y Gaer safnið Brecon í Wales, NAS og Royal Watercolor society
2020: Andstæður, Vatnslitafélags Íslands, Listasalur Mosfellsbæjar