Birgir Rafn Friðriksson - B R F, fæddur í júlí 1973, er uppalinn Eyfirðingur, nánar tiltekið á Akureyri. Myndlistarmenntun hóf hann formlega úti í Suður Frakklandi 1995, þar sem hann segist hafa fengið ”bakteríuna”. Hann snéri því fljótt aftur heim til Akureyrar þar sem hann sótti mörg kvöldnámskeið Myndlistarskólans á Akureyri. Birgir Rafn skráði sig svo í dagnám við skólann og útskrifaðist frá málunardeildinni árið 2001 eftir fjögurra ára nám. Á meðan náminu stóð vann hann m.a. fyrir sér sem myndskreytir á auglýsingastofu og kenndi á myndlistanámskeiðum. Árið 1999 hlaut hann styrk til hálfs. . . Lesa meira
Birgir Rafn Friðriksson - B R F, fæddur í júlí 1973, er uppalinn Eyfirðingur, nánar tiltekið á Akureyri. Myndlistarmenntun hóf hann formlega úti í Suður Frakklandi 1995, þar sem hann segist hafa fengið ”bakteríuna”. Hann snéri því fljótt aftur heim til Akureyrar þar sem hann sótti mörg kvöldnámskeið Myndlistarskólans á Akureyri. Birgir Rafn skráði sig svo í dagnám við skólann og útskrifaðist frá málunardeildinni árið 2001 eftir fjögurra ára nám. Á meðan náminu stóð vann hann m.a. fyrir sér sem myndskreytir á auglýsingastofu og kenndi á myndlistanámskeiðum. Árið 1999 hlaut hann styrk til hálfs árs námsdvalar í Lahti í Finnlandi. Að loknu námi lá svo leiðin suður til Reykjavíkur. Birgir Rafn rak vinnustofu og gallerí (Gallerí Teits) á árunum 2001-2004. Það ár dró námsþráin hann út til Danmerkur í frekari nám. Lagði hann stund á heimspeki, fagurfræði og listasögu í Danmörku og eftir útskrift frá Kaupmannahafnarháskóla 2009 snéri hann aftur heim til Íslands. Birgir Rafn lauk kennsluréttindanámi á grunn- og framhaldsskólastigi frá Listaháskóla Íslands árið 2011.
Birgir Rafn hefur víða komið við. Ásamt því að hafa unnið margskonar störf á sjó og landi, hefur hann haldið fjölda myndlistarsýninga; bæði einkasýningar sem og tekið þátt í mörgum samsýningum og einnig tekið þátt í margvíslegum myndlistartengdum viðburðum. Hann hefur um árabil kennt á myndlistanámskeiðum fyrir börn og fullorðna, bæði á vegum Myndlistarskóla Kópavogs sem og á eigin vegum. Birgir Rafn tók þátt í að stofna Myndlistarsamtökin Grósku í Garðabæ 2010, gengdi formannsembættinu fyrstu 2 árin og er enn virkur félagi þar. Hann er einnig félagi í SÍM og Vatnslitafélagi Íslands. Vinnustofa Birgis Rafns er á Garðatorgi í Garðabæ.
Birgir Rafn er fjölbreytilegur myndlistarmaður og verk hans því af ýmsum toga. Verk hans geta verið myndir af formrænu landslagi, leikur með aðferðir eða hugmyndir, jafnvel myndir af teiknimyndahetjunni Tinna og félögum. Hann leyfir sér að blanda saman aðferðum og stílum og vinnur jafnan í nokkrum miðlum s.s. í olíulitum, akrýllitum, vatnslitum, spray, pastel o.fl. Birgir Rafn segir þó að undanfarið hafi sterkast leitað á hann þörfin að leysa upp form hlutanna og daðra við rými þar sem hlutveruleikinn er annaðhvort alveg að hverfa eða rétt í þann mund að mótast. Verkin hafa því orðið afstæðari og frjálsari uppá síðkastið.
Spurður nánar um listsköpunina segir Birgir Rafn leikinn vera útgangspunkt verka hans, en samt verði þau að ná að endurspegla einhvern raunveruleika.
"Er ekki allt leikur? Menningin gæti verið allt öðruvísi og við að leika aðra hefðbundna leiki en við leikum í dag", segir Birgir og heldur áfram: "Verandi með hvítann striga er eins og að fá boð um að búa til nýjan leik. Ekki bara að ákveða útgangspunktinn, formið, taktinn, áferðina, litina, sjónarhornið, sýnina o.s.frv. heldur líka út á hvað hann gengur og hvort hann sé kaldhæðinn, fyndinn eða sorglegur. Manni verður samt fljótlega ljóst að það er eitthvað annað sem stýrir og stjórnar með manni við þessa sköpun. Maður er ekki bara sjálfur að ákveða hvernig allt muni á endanum vera og að það er einhver samræða í gangi. T.d. þarf maður að fórna, mála yfir og skemma það sem maður hefur lagt alúð við að móta, til þess að verkið gangi betur upp. Á þeim augnablilkum þar sem maður metur það sem komið er dugar líka hreint ekki að nota ljótt-eða-fallegt mælistikuna. Því veruleikinn er einfaldlega ekki alltaf fallegur við fyrstu sýn". Sjálfur segist Birgir Rafn notast við einhverskonar raunveruleikamælistiku við val sitt. "Raunveruleikinn er svo undarleg skepna og alls ekkert búið að ráða gátuna um hann ennþá. Í listinni opinberast raunveruleiki eins og merkingarþrútið sannleikskorn, sem starir beint í augun á manni líkt og spegilmynd. Þegar það tekst að framkalla þetta í formi, línu eða lit, er eins og tekist hafi að fanga vissan veruleika. Þess vegna held ég að myndlist lifi enn góðu lífi. Reyndar tel ég að fólk sem sýni list áhuga sé í raun að sýna sjálfu sér áhuga, en hvað um það. Hið stórbrotna og merkilega núna er kannski að hin raunverulegu augnablik hafa öðlast ótrúlega mörg andlit, geta allt eins sýnt sig í mynd af teiknimyndahetjunni Tinna eins og þykkmálaðri abstrakt mynd, falið sig í afstæðum tvívíðum formum og línusamspili, verið mynstur eða einfaldlega bara áferð. Ef það er ekki magnað og spennandi, þá veit ég ekki hvað”, segir Birgir Rafn
.
Sýna minna