Á bak við verkin - Kristín Berta

Kristín Berta Guðnadóttir hefur verið að mála og skapa frá því hún var barn. Foreldrar hennar gáfu henni tækifæri á að sækja námskeið hjá Myndlistaskóla Reykjavíkur þegar hún var aðeins 8 ára gömul. Hún sótti námskeið á hverju ári óslitið fram á unglingsárin. Kristín hélt áfram að mála sem ung kona og var stefnan sett á myndlistarnám erlendis. Þau plön breyttust þegar hún kynntist manninum sínum og fór í háskólanám í félagsráðgjöf. Smám saman hætti hún að mála og fannst henni eins og hún hefði valið aðra braut í lífinu og gaf hún nánast pensilinn upp á bátinn.

Fyrir sjö árum síðan veiktist systir Kristínar af brjóstakrabbameini, aðeins 40 ára gömul, og ári síðar veiktist elsta systir hennar af briskrabbameini þá 42 ára. Standandi frammi fyrir þeim ótta að eiga í hættu á að missa báðar systur sínar áttaði Kristín sig á því að hún hafði lagt til hliðar helstu ástríðu sína, að mála. Tók hún þá upp pensilinn aftur og byrjaði að mála. Því miður raungerðist ótti Kristínar þegar hún missti báðar systur sínar og segist hún ekki vita hvar hún væri í dag hefði hún ekki haft myndlistina sem farveg fyrir tilfinningarnar.

Fyrir tveimur árum stofnaði Kristín fyrirtækið Sálarlist þar sem hún kennir meðal annars fólki að nota listsköpun sem tæki til sjálfsræktar og fyrir hugarró.

Við fengum að spurja Kristínu út í sína listsköpun og myndlistarferil og komast að því hver listakonan er á bak við verkin.

Hvernig hefur þú þróast sem listamaður?

Þegar ég tók pensilinn upp aftur fór ég að mála með akrýl málningu. Áður, á mínum yngri árum, var það alltaf olíumálning og ekkert annað komst að. Ég komst að því að akrýl málning hentar mér mun betur og þeim hraða sem ég vil vinna á. Ég hef farið á fjölda námskeiða hérlendis og erlendis og elska ég að læra eitthvað nýtt. Ég breytti líka öllu mínu hugafari til listsköpunnar og lærði að mála fyrir ferlið, sálina og ánægjuna og þora að gera tilraunir. Þessi tilraunamennska hefur orðið til þess að ég er búin að gera fullt af myndum sem ég elska. Ég hætti líka að mála eftir pöntunum því það nærir ekki sköpunargleði mína. Ég hef gefið sjálfri mér leyfi til að mála það sem vill koma fram og er ég því ekki að mála alltaf það sama eða í sama stílnum. Mig langar alltaf að prófa eitthvað nýtt og myndi ég fljótt þreytast á því að ögra mér ekki. Það er því kannski erfitt að þekkja mig á stíl, en hver veit kannski er hann bara að þróast?

Hvernig myndir þú skilgreina list þína?

Ég mála frá hjartanu í núvitund, hugleiðslu og út frá tilfinningum. Verkin eru alls konar og mjög fjölbreytt því lífið er alls konar. Hvert einasta verk kennir mér eitthvað og fylgja þeim oft skilaboð sem ég reyni að finna út úr. Þegar ég mála á striga er ég í mjög góðri orku og það skilar sér vonandi í verkunum mínum. Mér finnst eitthvað fallegt við að setja góða orku í myndir sem svo fara inn á heimili fólks og það hefur fyrir augum alla daga. Það er kannski heilarinn og meðferðaraðilinn í mér sem vill lyfta upp orkunni í þessum heimi. Litir eru þess vegna oftast mjög sterkir í mínum verkum og það er mikil orka í þeim.

Kristín á vinnustofu sinni.


Við höfum öll þörf og getu til að skapa. Það að mála er minn farvegur fyrir sköpunarþrá. Að vera í tengslum við sköpunarkraftinn hefur hjálpað mér að finna innri ró, lífsorku og vilja á erfiðum tímum.

Á milli heima
50x60
Akrýl á striga

Kvöldkyrrð
50x60

Akrýl á striga

Nýtt upphaf
70x100
Blönduð tækni á striga

Innri fegurð
70x70

Blönduð tækni á striga


Eru einhver verk eða seríur sem standa upp úr?

Mér þykir ótrúlega vænt um öll verkin mín. En varðandi tímabil að þá eru það helst fugla- og trjámyndirnar mínar. Fuglarnir voru málaðir á erfiðasta tímanum þegar báðar systur mínar voru alvarlega veikar og ég var að reyna að ná utan um það. Ég varð að stokka öllu upp í mínu lífi og horfast í augu við hversu hverfult lífið getur verið. Ég varð að endurskoða barnatrúna og hreinlega skoða hver tilgangur lífsins væri eiginlega. Í það minnsta minn tilgangur. Ég fór því í mikla andlega vinnu. Mér var frelsi mjög hugleikið og langaði að fá frelsi frá alls konar í lífinu. Frelsi frá ótta við það hvað aðrir hugsa, frelsi til að ráða tímanum mínum meira sjálf og geta varið honum í gæðastundir þar sem lífið er svo óútreiknanlegt og við vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Fuglarnir voru á sveimi fyrir utan heimili mitt, endalausir hrafnar, og ég var mjög heilluð af fluginu þeirra og fóru þeir þá að rata á strigann með frelsis þránni. Ég fer mikið í náttúruna í kringum mig til að hlaða batteríin og umvafði ég mig trjám og náttúru í minni sjálfsrækt í gegnum erfiða tíma. Ótrúlega mörg verk í þeirri seríu eru bleik og þar var ég með hugann við styrk kvenna í mínu lífi sem hafa gengið í gegnum það lífsverkefni að fá krabbamein. Mig langaði að heiðra konurnar í mínu lífi og allar konur, lífið, sorgir og sigra með bleiku trjánum. Markmiðið var að halda sýningu í bleikum október fyrir tveimur árum en því miður greip lífið inn í og varð ég að hverfa frá því plani. Flestar myndirnar eru til sýnis í dag á Apollo art og hafa margar þeirra ratað á sitt nýja heimili.

„Frelsi“ eftir Kristínu Bertu.

Afhverju valdir þú listsköpun?

Fyrir mér er sköpunarkrafturinn lífsorka. Við höfum öll innbyggða þörf og getu til að skapa. Sköpun getur verið hvað sem er, að mála, rækta garðinn sinn, búa til mat eða nýtt prjónamynstur. Það að mála er minn farvegur fyrir þessa sköpunarþrá og ef ég finn henni ekki farveg er ég ekki að fullu hamingjusöm. Að vera í tengslum við sköpunarkraftinn hefur hjálpað mér að finna innri ró, lífsorku og vilja á erfiðum tímum og leitt mig nær sjálfri mér og mínu hjarta. Það hjálpar mér að vera meira skapandi á öllum sviðum lífsins, í vinnu minni sem þerapisti og í öllu bara sem ég tek mér fyrir hendur. Stærsta sköpunarverkið er síðan okkar eigið líf og erum við að skapa það alla daga.

You have successfully subscribed!
This email has been registered