Anna Ólafsdóttir Björnsson er fædd í miðborg Reykjavíkur og ólst þar upp til tólf ára aldurs. Þá flutti hún út á Álftanes, sem var fámenn sveit á þeim tíma. Hún hefur búið þar mestmegnis síðan ásamt fjölskyldu sinni. Meginviðfangsefnin finnur Anna oft og tíðum í umhverfi sínu og lagar að þeirri tækni sem hún vinnur með hverju sinni. Hún hefur fengist við margvíslega listsköpun, teikningu, grafík, olíumálun, blandaða tækni en síðustu árin hefur hún unnið nær eingöngu í vatnslit. Tærleiki vatnslitarins, óstýrilæti og fjölbreytnin sem vatnsliturinn býður upp á hefur gripið hana fastar en flest annað sem hún hefur glímt. . . Lesa meira
Anna Ólafsdóttir Björnsson er fædd í miðborg Reykjavíkur og ólst þar upp til tólf ára aldurs. Þá flutti hún út á Álftanes, sem var fámenn sveit á þeim tíma. Hún hefur búið þar mestmegnis síðan ásamt fjölskyldu sinni. Meginviðfangsefnin finnur Anna oft og tíðum í umhverfi sínu og lagar að þeirri tækni sem hún vinnur með hverju sinni. Hún hefur fengist við margvíslega listsköpun, teikningu, grafík, olíumálun, blandaða tækni en síðustu árin hefur hún unnið nær eingöngu í vatnslit. Tærleiki vatnslitarins, óstýrilæti og fjölbreytnin sem vatnsliturinn býður upp á hefur gripið hana fastar en flest annað sem hún hefur glímt við fram til þessa.
Eftir stúdentspróf ákvað Anna að helga sig myndlistinni. Hún fór í fullt nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en hætti námi áður en hún lauk öðru námsárinu. Hún hafði jafnframt farið í háskólanám í bókmenntum og sagnfræði og valdi að leggja þau fög frekar fyrir sig, sem hún og gerði. Hún lagði sérstaka áherslu á listasögu og tók öll listasögunámskeið sem í boði voru háskólanáminu. Eftir fáein ár komst hún að raun um að hún gæti ekki yfirgefið myndlistina svo glatt og hellti sér út í nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík þar sem hún var einkum í teikningu, grafík og síðar olíumálun. Aðalkennarar hennar þar voru Valgerður Bergsdóttir, Hringur Jóhannesson og Ingólfur Örn Arnarsson.
Fyrstu almennilegu kynni hennar af vatnslitatækni voru rétt fyrir árþúsundamótin þegar Gunnlaugur Stefán Gíslason kenndi eitt námskeið hjá listafélaginu Dægradvöl á Álftanesi. Þegar Vatnslitafélag Íslands var stofnað árið 2019 varð hún brátt vel virk í félaginu. Hún sneri sér nær alfarið að vatnslit í kjölfarið, að hluta til samhliða starfi sínu við hugbúnaðargerð og glæpasagnaskrif. Hún hefur sótt sér kennslu bæði hérlendis og erlendis, meðal annars hjá Keith Hornblower, Alvaro Castagnet og Vicente García. Anna hefur verið í ýmsum formlegum og óformlegum myndlistarhópum og má þar nefna, auk Dægradvalar og Vatnslitafélagsins, Grósku, myndlistarfélag í Garðabæ, sem staðið hefur fyrir fjölmörgum samsýningum auk árlegrar Jónsmessuhátíðar sem Anna hefur oftast verið með í.
Hún tók í fyrsta sinn þátt í sterkri alþjóðlegri vatnslitahátíð í Cordóba á Spáni í mars 2023, (I International Watercolour Festival – IWS Arte21online) og vann þar 2. verðlaun í keppni hátíðarinnar. Þátttakendur í samkeppninni voru á þriðja hundrað frá 30 löndum víðs vegar um heiminn.
Anna hefur haldið fjölmargar einkasýningar, þá fyrstu árið 1984 í Listamiðstöðinni við Lækjartorg. Hún vann stóra veggskreytingu fyrir veitingahúsið Eldvagninn við Laugaveg, 1987. Anna hefur í seinni tíð einkum sýnt verk sín á kaffihúsum, vinnustöðum, í ýmsum smærri sýningarrýmum og á bókasöfnunum í Garðabæ og í Kópavogi. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga, einkum á vegum Dægradvalar og Grósku.
Sýna minna