
Sigurbjörg Eva
Sigurbjörg Eva Sigurðardóttir er fædd 1992 og kemur frá Kolsholti í Flóahreppnum. Hún býr á Selfossi með manninum sínum og fjórum börnum.
Sigurbjörg dregur innblástur frá mörgu, allt frá náttúrunni til hlaðvarpsþátta og jafnvel teiknimynda. Einnig fylgist hún með listamönnum á samfélagsmiðlum og dáist að verkum Callen Schaub, þá sérstaklega aðferðum hans.
Stíllinn er acrylic pouring og abstract en Sigurbjörg er sjálflærð og finnst skemmtilegast að prófa sig áfram. Notar jafnvel það sem hendi er næst. Þar ber helst að nefna trélím, spasl, límbyssu, álpappír og fleira sniðugt sem ekki er talið hefðbundið.
Sigurbjörg reyni eins og hún getur að vera umhverfisvæn og leggur mikið upp með að notast við afgangsefni. Það er að segja, viðarplötur sem á að henda, gamla skápa, hurðir, borð og fleira sem maðurinn hennar sagar svo út fyrir hana. Henni finnst frábært að geta notað gamla hluti og gefa þeim annan tilgang. Hún hefur líka notað afgangs málingu þegar það er til og hentar í verkið. Ýmislegt sem tínist til í bílskúrnum þeirra.
Eins og gefur að skilja er oft mikið að gera með svona stóra fjölskyldu en henni finnst frábært að geta kúplað sig út stundum og fara inn í skúr að skapa eitthvað fallegt úr því sem er til þá stundina. Sigurbjörg hefur ekki haldið neina sýningu en aldrei að vita hvað framtíðin hefur uppá að bjóða.