
Pétur Úlfur
Pétur Úlfur er fæddur í Reykjavík árið 1975 og má telja hann til utangarðslistamanna á Íslandi. Sjálflærður í myndlist og greindur með geðklofa, má segja að fyrstu myndlistarskrefin hafi verið tekin í innlögn á geðdeild árið 2017 og Pétur í framhaldinu heltekinn, penninn eða pensillinn varla hvíldur síðan þá. Listin fyrir Pétri er líka þerapía, þegar þarf að slökkva á hausnum eða þegar hann er hressari, auðga andann með litum og látum.
"Ég er ekki með fyrirfram ákveðnar hugmyndir þannig, ég sest bara niður og fylgi auganu og mála það sem ég sé, svona eins og ég sé að skafa happaþrennu. Samt er lífið í hverju verki að skóla mig til".
Pétur notast mest við akrýl málningu á viðarplötur en einnig Posca penna á pappír, hlustar mikið á The Stooges, Sonic Youth og 60's garage rokk á meðan leik stendur. Stundum koma þó dagar þegar nægir að hlusta á tölvuviftuna.