
Bryndís Brynjarsdóttir (Biddý)
Bryndís er frá Dalvík en hefur búið í Mosfellsbæ í 22 ár. Hún stundaði myndlistarnám bæði við Myndlistaskóla Akureyrar og Myndlista- og handíðaskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist árið 1999. Frá útskrift hefur hún tekið þátt í nokkrum samsýningum bæði á Íslandi og erlendis og haldið fjölmargar einkasýningar með olíumálverkum og þrívíddarverkum úr áli og gleri. Myndlist Bryndísar hefur verið í ætt við strangflatarmálverk og undir áhrifum arkitektúrs. Formin á myndfletinum stærðfræðileg á mörkum tví- og þrívíddar. Það sem m.a. hafa einkennt verkin er stærðin en flest eru þau stærri kantinum bæði þrívíddarverkin og málverkin.
Undanfarin 2 ár hefur Bryndís hins vegar verið að þróa annars konar verk eða efnistök og notast að mestu við pappír og akrýlliti. Frumformin hafa vikið fyrir öllu lífrænni formum sem minna sumpart á undirdjúpin. Höfundareinkennin eru þó skýr þar sem samspil lita og forma hefur ávalt verið megið stefið í verkum Bryndísar. Í dag er það flæðið og frelsið sem skapar verkin og oftast er teiknað með penna beint á myndflötinn þannig að ekki er verið að breyta neinu í teikningunni. Útkoman er eins konar munstur sem teiknast upp og hreyfingin sem næst fram er þetta samspil lita og forma á fletinum.
En ásamt því að sinna myndlistinni starfar Bryndís einnig sem grunnskólakennari. Hún er með kennsluréttindi og MA gráðu í menningarstjórnum frá Háskólanum á Bifröst. Bryndís hefur unnið ötullega að menningarmálum í Mosfellsbæ bæði sem varaformaður og formaður menningarmálanefndar í Mosfellsbæ. Unnið m.a. að stefnumótun listasalarins í Mosfellsbæ sem búinn er að marka sér sess í menningarlífi höfuðborgarsvæðisins.